top of page

Þegar Raunveruleikinn bankar á dyr

Grein eftir Jóhannes Loftsson í morgunblaðinu

Þrátt fyrir að covid-tilfellum í Evrópu hafi fjölgað aftur eru dauðföllin miklu færri en áður.


Í sumar hefur eitthvað skrítið verið í gangi með covid. Þótt önnur bylgjan sé komin á fulla ferð í Evrópu, er sem allt bit sé farið úr veirunni. Fólk virðist hætt að deyja. Elliheimilin eru betur varin og vegna mildari samkomutakmarkana er meira af yngra fólki nú að smitast. Smitútbreiðslan er orðin eðlilegri og ónæmi meðal yngra og hraustara fólks er smám saman farið að vernda þá eldri og viðkvæmari eins og gerist í venjulegri flensu. Ekki má heldur gleyma sumrinu því ónæmiskerfið okkar eflist með hækkandi sól og bættri D-vítamínstöðu líkamans. Fyrir vikið eru sumur aldrei flensutíð. Rannsóknir á covid hafa sýnt sterka fylgni milli D-vítamíns í blóði og lífslíkna sjúklinga. Nýleg grein í Lancet sýnir að komið hefur í ljós að lífslíkur sjúklinga með D vítamín yfir lágmarki hafa reynst tvöfalt meiri en hjá þeim sem skortir D-vítamín. Önnur splunkuný rannsókn á Spáni hefur nú bætt um betur og sannað að orsakatengslin eru jafnvel enn sterkari. Aðeins 2% sjúklinga sem var gefið D-vítamínmeðferð í rannsókninni þurftu að fara í gjörgæslu á meðan 50% sjúklinga sem ekki fengu D-vítamínmeðferð þurftu að fara í gjörgæslu. Hér er um gríðarlega mikilvæga uppgötvun að ræða. Í ljósi þess að D-vítamín er skaðlaust með öllu er illskiljanlegt að yfirvöld skuli ekki tala meira fyrir slíkum heilsubótarlausnum.


Í splunkunýrri grein Decode kemur fram að 0,3% dánartíðni var meðal þeirra sem mynduðu mótefni í vorbylgjunni. Sem smitdánartíðni er þetta líklega ofmat því horft er fram hjá því að erlendir ferðamenn voru lítið skimaðir í vor og fóru ekki í sóttkví fyrr en eftir miðjan apríl þegar faraldurinn var nær búinn. Ekki má því telja þá með í slíkri tölfræði sem bara nær til Íslendinga. Enn fremur náði rannsóknin ekki til ónæmisvirkni T-fruma en miðað við sænskar frumrannsóknir gæti slíkt ónæmi verið tvöfalt á við mótefnaónæmið. Smitdánartíðni vorbylgjunnar liggur því mögulega nær 0.15% sem er svipað og svæsin flensa. Enn meira máli skiptir að rannsóknin tók ekki tillit til sumarsins. Í sumar hafa spítalainnlagnir aðeins verið þriðjungur af því sem var í vor miðað við fjölda smitaðra. Sumarsmitdánartíðnin er því hugsanlega fallin niður í 0.05-0.1% (mild flensa). Þetta er ekki hægt að mæla enn því enginn hefur dáið á Íslandi úr covid síðan í apríl.


Við þetta bætist svo að meðferðarúrræði sjúklinga hafa batnað nokkuð því covid er ekki lengur óþekkti sjúkdómurinn sem við sáum í vor.


Svo virðist því sem landinu og íslenska efnahagskerfinu hafi verið lokað vegna mildrar flensu.


Minna jöfnu lífin

Aðgerðir sem í upphafi voru kynntar sem neyðarráðstöfun til skamms tíma svo að heilbrigðiskerfið réði við óþekkta drepsótt hafa smám saman breyst í að hefðbundnar lækningar hafa orðið að víkja fyrir óhefðbundinni löggæslu sem enginn veit hvenær muni enda. Slík alræðisinngrip í lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu kosta alltaf fórnir sem nú eru smám saman að koma í ljós.


Daglegir neyðarfundir hafa skapað ótta undiröldu í samfélaginu sem fólk þolir misvel. Ein afleiðing er sú að í lok júlí höfðu álíka margir framið sjálfsvíg og venjulega gera yfir heilt ár. Önnur afleiðing er að fólk er seinna að leita til læknis auk þess sem hundruðum læknisaðgerða hefur verið frestað. Það er dauðans alvara þegar alvarlegir sjúkdómar fá að ágerast og miðað við mat á áhrifum sambærilegra inngripa erlendis má áætla að fjöldi mannslífa hafi þegar tapast eða muni tapast vegna meðferðartafanna.


Gróft áætlað hafa aðgerðir yfirvalda þegar kostað 20-30 mannslíf til viðbótar við sjúkdóminn sjálfan. Það er samt bara toppurinn á ísjakanum. Mannskæðasta afleiðing djúprar kreppu er hinn óumflýjanlegi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu sem koma skal. Í síðustu kreppu fór niðurskurðurinn yfir 200 milljarða á núvirði. Covidkreppan stefnir hins vegar í að verða sú dýpsta í lýðveldissögunni og mun vara mörg ár. Skaði slíks niðurskurðar mun teljast í hundruðum mannslífa en ekki tugum. Þessi líf virðast þó ekki eins jöfn og önnur fyrir þá sem vilja fresta komu covid með lögregluríki.


Hin stórhættulega löggæslulækningatilraun byggir á stjórnmálaloforði um að galdralækning sé rétt handan við hornið: Bóluefni sem læknar alla. Ekki er þó allt sem sýnist. Ef bóluefni finnst þá tekur þróun þess venjulega 10-20 ár til að tryggja að það sé öruggt. Krafan um flýtiþróun hefur nú orðið öryggissjónarmiðum yfirsterkari og því hafa bóluefnaframleiðendur krafist undanþágu frá skaðabótaábyrgð. Vernd bóluefnisins mun að auki verða takmarkaðri fyrir fólk í áhættuhópi og þrátt fyrir þróunarhraðann búast Svíar ekki við að geta byrjað að nota bóluefnið fyrr en í lok næsta árs eða byrjun 2022. Sama hlýtur því að gilda um Ísland því okkar bóluefni mun koma frá Svíþjóð. Loka verður landinu til 2022 ef yfirvöld ætla að halda núverandi stefnu til streitu. Ísland stefnir því í hrun af slíkri biblíusögulegri stærðargráðu að enginn hefur enn treyst sér til að meta skaðann.


2007 Desjavú

Þrátt fyrir að ólýsanlegar hörmungar séu nú í framtíðarhorfum þjóðarinnar er sem þjóðin sé enn í sofandi dái. Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar kom í ljós að aðeins 13% Íslendinga vilja vægari aðgerðir og restin vill óbreytta stefnu eða harðari. Hvernig stendur á þessu brjálæði? Eru Íslendingar virkilega reiðubúnir að fórna margfalt fleiri mannslífum til að fresta komu covid þar til við gefumst upp? Hundruðum mannslífa fórnað fyrir engan ávinning? Eru Íslendingar reiðubúnir að taka áhættu með heilsu sína og barna sinna í tilraunabólusetningu sem framleiðandinn þorir ekki einu sinni að ábyrgjast vegna sjúkdóms sem er miklu mildari en flensa fyrir börnin þeirra? Vill fólk loka landinu í eitt og hálft ár í bið eftir bóluefni sem kannski kemur aldrei? Er fólk upplýst um að einkenni covid verða mun vægari ef það bara man að taka vítamínin sín?


Auðvitað ekki. Fólk er enn of fast í áróðursskotgröfum til að afla sér raunverulegra upplýsinga. Áróðursherferð sem var hleypt af stað í nafni samstöðu hefur skapað gerviveruleika þar sem viska stjórnvalda er hafin til skýjanna. Í skjóli áróðurs þar sem allar efasemdir eru litnar hornauga þurfa ráðamenn hvorki að skýra hvert förinni er heitið né skýra hverjar afleiðingar aðgerðanna verða. Slíkt ábyrgðarleysi á ögurstund ætti hins vegar að vera flestum Íslendingum kunnuglegt því þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkur blekkingarvefur hefur verið ofinn fyrir almenning.


Árið 2007 lék allt í lyndi á yfirborðinu. Gengiskörfulán voru svo góð að fólk fékk borgað með láninu sínu. Ríkisstjórnin kallaði sig velferðarstjórnina og lofaði stórátaki í útþenslu velferðarkerfisins. Þrátt fyrir að blikur væru þegar á lofti voru úrtöluraddir þaggaðar niður af offorsi því viðskiptasnilli Íslendinga var slík að allt mundi reddast.


Margt er líkt með aðdraganda komandi covidhruns. Gervigengi krónunnar er haldið uppi af Seðlabankanum og útþensla velferðarkerfis fyrirtækja og fólks hefur tafið áhrif hrunsins og jafnvel hvatt suma til lántöku á versta tíma. Allar gagnrýniraddir eru þaggaðar niður með offorsi því alviska „sérfræðinganna“ er álitin slík að þeir hljóta líka að kunna hagfræði. Ef það klikkar þá er nýsköpunarsnilli Íslendinga slík að þó að allt hrynji þá hlýtur þetta að reddast.

Árið 2007 var stefnu stjórnvalda stýrt af hagsmunum banka, en nú eru óbeinir talsmenn stærstu lyfjafyrirtækja heims þeir sem mest áhrif hafa á stefnuna. Hagsmunir stórra hagsmunaaðila eru hins vegar ekki alltaf þeir sömu og hagsmunir þjóðarinnar. Það kom í ljós í síðasta hruni þegar lánið til KB banka hvarf á einni nóttu.


Á endanum mun raunveruleikinn banka á dyr. Sjóðir ríkisins eru að klárast og lánskjör að versna. Hækkun bóta mun leiða til lækkunar gengis og minnkun skatttekna mun leiða til niðurskurðar. Aukið atvinnuleysi mun leiða til meiri fátæktar og vonleysis í samfélaginu. Ef haldið er áfram á sömu braut mun neyðin á endanum verða svo mikil að margfalt fleiri munu deyja af covid aðgerðunum en af sjúkdómnum sjálfum. Útilokað verður því að halda landinu lokuðu til 2022 og seinni bylgjur verða því óumflýjanlegar.


Eina leiðin út úr þessari blindgötu er að heilbrigðisyfirvöld hætti þessum lífshættulega lögguleik og einbeiti sé aftur að því að bæta heilsu Íslendinga með raunhæfri stefnu sem er sjálfbær til lengri tíma. Áður en það gerist verður íslensk þjóð að vakna. Líf heillar þjóðar er að veði.





bottom of page