top of page

Undirskriftasöfnun: Krafa um sóttkví ferðalanga er of íþyngjandiÁ dögunum sendi Coviðspyrnan frá sé yfirlýsingu með 23 áríðandi spurningum til yfirvalda um þá vegferð sem ríkisstjórnin er að leiða þjóðina í.

Það eru mikil vonbrigði að enn hafa engin svör borist við þessum sjálfsögðu spurningum sem ábyrgum yfirvöldum með mótaða stefnu ætti að reynast auðvelt að svara.

Flest bendir til að lífslíkur sjúklinga sem smitast af SARS-CoV-2 séu núna orðnar svipaðar og ef um væri að ræða svæsna flensu. Þrátt fyrri það veit enginn enn þá hvenær ætlunin er að hætta mjög íþyngjandi beitingu sóttvarnalaga. Enginn veit enn þá heldur hvort til standi að þvinga heilbrigt fólk til að láta bólusetja sig. Vandað mat á skaða sóttvarnaaðgerða liggur ekki fyrir og engin leið er að vita hvenær þessi óvissuferð tekur enda eða hvað hún mun kosta þegar upp er staðið.

Í stað þess að veita svör og bregðast við faraldrinum af yfirvegun hafa yfirvöld nú sama sem lokað landinu fyrir ferðamönnum með því að skikka alla þá sem ferðast til Íslands til að sæta sóttkví í allt að sex daga og gangast undir veirupróf í tvígang.

Ferðaþjónusta er í dag ein mikilvægasta stoð íslensks atvinnulífs en stjórnvöld virðast reiðubúin að fórna greininni án haldbærs rökstuðings.

Coviðspyrnan hefur hafið undirskriftasöfnun til að mótmæla þessum öfgafullu inngripum. Mótmælayfirlýsing okkar er eftirfarandi:

„Við undirrituð mótmælum þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja alla sem ferðast til Íslands koma í sóttkví og viðbótarskimun. burtséð frá því hvort fólk er smitað eða ekki.

Í sumar hafa minna en 0.1% ferðamanna reynst smitaðir. Seinni skimun mun því litlu við bæta en mun aftur á móti valda óásættanlegum skaða.

Aðgerðin mun orsaka atvinnuleysi tugþúsunda Íslendinga með tilheyrandi efnahagslegum hamförum af mannavöldum.

Við krefjumst því þess að yfirvöld falli frá þessari skaðlegu stefnu og beiti aðeins sóttvarnaaðgerðum sem hægt er að viðhalda til langs tíma án þess að valda óbætanlegu samfélagstjóni.“


Við hvetjum alla sem vilja styðja þessa yfirlýsingu að skrá sig á undirskriftalistann. Undirskriftir eru staðfestar með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og geta þeir sem vilja skráð sig nafnlaust.

bottom of page